Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 85/2014

Mál nr. 85/2014

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Hinn 12. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 14. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Hinn 22. ágúst 2014 bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send umboðsmanni skuldara og óskað eftir afstöðu embættisins með bréfi sama dag. Greinargerð umboðsmanns skuldara frá 28. ágúst 2014 barst með bréfi 29. ágúst sama ár og var hún send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2014 þar sem honum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1945 og er fráskilinn. Hann býr í eigin íbúð að B, sem er 69 fermetrar að stærð. Kærandi fær greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun og Greiðslustofu lífeyrissjóða. Þá starfar kærandi einnig sem [...] og hefur launatekjur af því.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 22. nóvember 2012 eru 24.887.039 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til fasteignakaupa en hann hafi á tímabili átt X fasteignir. Þá hafi gengið illa að selja þær aftur. Kærandi er nú skráður eigandi fasteignar að B, og einnig að 50% eignarhluta fasteignar að C á móti fyrrverandi eiginkonu sinni.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. nóvember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. apríl 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteignir sínar sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta séu 185.000 krónur, auk þess sem hann muni fá 59.000 krónur í leigutekjur á mánuði vegna fyrirhugaðrar útleigu herbergis. Umsjónarmaður hafi sent frumvarp til kröfuhafa þar sem gert var ráð fyrir því að tvær fasteignir í eigu skuldara, B og fasteign að C yrðu seldar en að kærandi myndi yfirtaka veðlán vegna fasteignar í eigu fyrrverandi eiginkonu sinnar, nánar tiltekið vegna B. Íbúðalánasjóður hafi hafnað tillögum umsjónarmanns um að kærandi yfirtæki síðastnefnt lán. Umsjónarmaður hafi þá lagt til að kærandi myndi halda fasteign sinni á B, en þeirri tillögu hafi kröfuhafar einnig hafnað þar sem greiðslugeta kæranda væri alfarið byggð á leigutekjum. Í kjölfar þess tilkynnti umsjónarmaður kæranda að selja yrði báðar fasteignir hans en kærandi féllst ekki á það.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 1. júlí 2014 þar sem honum var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engin svör bárust frá kæranda.

Með ákvörðun 30. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og krefst ógildingar ákvörðunarinnar.

Kærandi telur forsendur umboðsmanns skuldara hafa verið rangar og að ekki hafi verið tekið tillit til tekna sem kærandi hafi af störfum sínum sem [...], en þær nemi 65.000 krónum á mánuði eftir greiðslu skatta. Örorkulífeyrir hafi einnig hækkað um 31.000 krónur og því séu tekjur kæranda 96.000 krónum hærri en þær hafi verið þegar veðkröfuhafar höfnuðu greiðsluaðlögunarsamningi. Í ljósi framangreinds telur kærandi sig geta greitt af þeim kröfum sem tryggðar séu með veði í fasteignum hans og falli innan verðmats þeirra.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldar

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara kveður kröfuhafa hafa hafnað tillögum umsjónarmanns sem gerðu ráð fyrir að kærandi ýmist héldi fasteign sinni á B eða tæki yfir fasteignaveðlán fyrrum eiginkonu sinnar vegna neðri hæðar sama húss. Umsjónarmaður hafi því kveðið á um sölu beggja fasteigna kæranda, þ.e. að C og B samkvæmt 13. gr. lge. þar sem ljóst væri að kærandi hefði ekki nægilega mikið fé aflögu í hverjum mánuði til að greiða fastar afborganir af veðkröfum sem féllu innan matsverðs eignanna. Kærandi hafi hvorki fallist á sölu eignanna né brugðist við fyrirspurnum embættisins um afstöðu hans til hennar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara kveður kæranda hafa lagt fram gögn um tekjur fyrir tímabilið 1. apríl til 30. júní 2014 sem ekki lágu fyrir þegar fyrrnefnd ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda var tekin 30. júlí 2014. Þar sem tilvitnaðar tekjur komi ekki fram á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra nema fyrir júnímánuð telji umboðsmaður skuldara ekki ljóst hvort staðið hafi verið réttilega að skattskilum vegna þessara tekna.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. apríl 2014 kemur fram að Íbúðalánasjóður hafi hafnað tillögum umsjónarmanns um að kærandi myndi halda eftir fasteign sinni á B og því sé ekki annar kostur í stöðunni en að báðar fasteignir kæranda, þ.e. að C og B, verði seldar.

Í málinu liggur fyrir að kærandi á 50% eignarhlut í fasteign að C á móti fyrrverandi eiginkonu sinni. Kærandi kveðst hafa hærri tekjur en lagðar séu til grundvallar í ákvörðun umboðsmanns skuldara og hefur hann lagt fram launaseðla fyrir apríl, maí og júní 2014 því til staðfestingar. Samkvæmt framlögðum launaseðlum fær kærandi greiddar 87.657 krónur á mánuði frá D. Umboðsmaður skuldara kveður tilvitnaðar tekjur samkvæmt launaseðlum ekki koma fram á staðgreiðsluskrá kæranda fyrir apríl og maí 2014 og því sé ekki ljóst hvort staðið hafi verið réttilega að skattskilum vegna þeirra tekna.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf því að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna annars vegar hverjar skuldbindingar skuldara séu og hver sé greiðslubyrði þeirra og hins vegar hverjar tekjur skuldara séu og hve mikið hann geti greitt af skuldbindingum sínum í mánuði hverjum að framfærslukostnaði frádregnum.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði og því beri meðal annars að veita leiðbeiningar um það hvaða gögn aðila ber að leggja fram.

Sé miðað við upplýsingar á launaseðlum, svo og júní 2014 samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, nema tekjur kæranda eftir greiðslu skatta samtals 292.119 krónum. Áætlaður framfærslukostnaður kæranda samkvæmt frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun er 172.817 krónur og byggist hann annars vegar á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir einstakling í febrúar 2013 og hins vegar á gögnum frá kæranda sjálfum. Samkvæmt því hefur kærandi 119.302 krónur á mánuði aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum.

Fasteignamat fasteignar kæranda að B, var 9.570.000 krónur samkvæmt skattframtali 2014. Kærandi á einnig 50% eignarhlut í fasteign að C, á móti fyrrverandi eiginkonu sinni. Fasteignamat eignarinnar var 12.150.000 krónur samkvæmt skattframtali 2014, en samkvæmt því var matsverð eignarhlutar kæranda 6.075.000 krónur.

Mánaðarlegar afborgarnir af áhvílandi veðkröfum á fasteign kæranda að B voru 58.684 krónur á mánuði samkvæmt tölvupósti frá Íbúðalánasjóði 6. nóvember 2013. Samkvæmt sama tölvupósti voru mánaðarlegar afborgarnir af áhvílandi veðkröfum á fasteign kæranda að C alls 65.962 krónur á mánuði eða 32.981 króna miðað við 50% eignarhlut kæranda. Sé miðað við afborgun af þeim veðkröfum, sem falla innan matsverðs eignanna á grundvelli fasteignamats samkvæmt skattframtali 2014, væri greiðslubyrði lánanna annars vegar 46.947 krónur vegna B og hins vegar 28.364 krónur vegna helmings C, eða samtals 75.311 krónur á mánuði.

Samkvæmt samskiptaskjali í gögnum málsins hafði kærandi ítrekað samband við umboðsmann skuldara til að upplýsa um að tekjur hans hefðu aukist og lagði fram launaseðla því til staðfestingar.

Ekki kemur fram í gögnum málsins að umboðsmaður skuldara hafi leiðbeint kæranda um að sjá til þess að upplýsingum um breyttar tekjur hans yrði komið á framfæri við Ríkisskattstjóra og leiðrétting gerð á staðgreiðsluskrá. Þannig verður að telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, enda voru upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra nauðsynlegar til að hægt væri að leggja mat á fjárhag kæranda.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er þess ekki getið hve mikið kærandi geti greitt af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar í mánuði hverjum, en fram kemur að ekki verði séð að kærandi geti staðið skil á afborgunum veðkrafna innan matsverðs „eignarinnar“. Af framsetningu umboðsmanns skuldara er hvorki ljóst hvort miðað sé við matsverð og afborganir beggja fasteigna kæranda né hvort miðað sé við afborganir af áhvílandi lánum á C í heild eða aðeins afborganir af matsverði eignarhluta kæranda. Í málinu liggja auk þess hvorki fyrir gögn um það hver fjárhæð áhvílandi veðlána á fasteignum kæranda var á þeim tíma er umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun né hver greiðslubyrði lánanna var á þeim tíma. Að þessu leyti skortir á að umboðsmaður skuldara hafi byggt ákvörðun sína á viðhlítandi gögnum.

Þá virðist umboðsmaður skuldara enn fremur ekki hafa kannað hvort umsjónarmaður hafi aflað upplýsinga um afstöðu meðeiganda kæranda til sölu fasteignarinnar að C. Þar sem kærandi er aðeins eigandi hluta eignarinnar þarf meðeigandi hans, eðli málsins samkvæmt, að samþykkja sölu eignarinnar til að hún verði seld við greiðsluaðlögun. Því verður að telja nauðsynlegt að afstaða meðeiganda liggi fyrir þegar tekin er ákvörðun um fasteign sem svo er ástatt um. Að mati kærunefndarinnar verður að telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni hvað þetta atriði varðar í hinni kærðu ákvörðun þegar lagt var mat á tillögu umsjónarmanns um að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda skyldu felldar niður.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að telja að ekki hafi verið forsendur til að leggja mat á tillögu umsjónarmanns um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., þar sem nægilegra upplýsinga og gagna hafði ekki verið aflað áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 2. mgr. 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum